Vestanpósturinn er kominn út. Blaðið í ár er helgað afmælishátíð Ísafjarðarbæjar sl. sumar og gerir hátíðinni góð skil. Fjöldi skemmtilegra og áhugaverðra greina er í blaðinu. Heimir Már Pétursson rifjar upp minningar um bæinn sem hefur allt sem prýða má eina borg og minningarbrot frá skógarbúum er á sínum stað. Ólína Þorvarðardóttir segir frá væntanlegri bók Ferðafélags Íslands, Við djúpið blátt, sem hún skrifar, efni úr útgefinni bók Engilberts S. Ingvarssonar og efni úr óútkominni bók um sögu knattspurnunnar á Ísafirði er meðal efnis í þessu myndarlega blaði. Myndaalbúmið frá Þóru Jónu vekur vonandi áhuga hjá „yngra“ fólkinu á Ísfirðingafélaginu.
Blaðið er Ísfirðingafélaginu til mikils sóma og má segja að það sé árleg samantekt á sögulegum og menningarlegum heimildum úr ýmsum áttum sem gerir mikið fyrir Ísfirðingafélagið að ekki sé talað um Ísafjörð og samfélagið í kring.
Veg og vanda af útgáfu blaðsins eiga Edda Pétursdóttir og Marta Hlín Magnadóttir. Stjórn Ísfirðingafélagsins óskar þeim stöllum hjartanlega til hamingju með glæsilegt blað og færir þeim kærar þakkir fyrir vel unnið verk. Það er von stjórnar Ísfirðingafélagsins að blaðið veiti félagsmönnum Ísfirðingafélagsins og öðrum lesendum blaðsins gleði og ánægju um páskana og næstu vikurnar.
Gleðilega páska,
Stjórn Ísfirðingafélagsins