Aðalfundur Ísfirðingafélagsins var haldinn þann 31. maí síðastliðinn. Auk hefðbundinnar dagskrár aðalfundar fóru fram breytingar á lögum félagsins sem hafa verið óbreytt frá árinu 1995. Engar stórar breytingar urðu þó á lögunum, að þessu sinni, heldur var að mestu verið að færa þau í nútímalegra horf. Lög Ísfirðingafélagsins fyrr og nú má finna á vefsíðu félagsins www.isfirdingar.is.
Að venju var kosið til stjórnarsetu á aðalfundi og í ár bar það helst til tíðinda að formaður félagsins, Guðmundur Friðrik Jóhannsson, lét af embætti, eftir farsæla formennsku í félaginu. Stjórn Ísfirðingafélagsins vill við þetta tækifæri þakka Guðmundi kærlega það fórnfúsa starf sem hann hefur unnið fyrir hönd félagsins á liðnum árum.
Rúnar Örn Rafnsson var kosinn nýr formaður á aðalfundinum og með honum í stjórn félagsins eru: Agnes Ósk Marzellíusardóttir, Baldur Þorleifur Sigurlaugsson (sem kemur nýr inn í stjórnina), Kristín Ósk Sigurjónsdóttir, Sigurða Sigurðardóttir, Stefanía Ólöf Reynisdóttir og Sunna Karen Einarsdóttir.
Varamaður stjórnar og vefstjóri var kosinn Sigurður G. Sigurðsson og nýr ritstjóri Vestanpóstsins er Sigríður Inga Sigurðardóttir.