Ísfirðingafélagið er búið að selja Sóltún!

Sóltún við Bæjarbrekku

Sóltún er búið að vera í eigu Ísfirðingafélagsins frá árinu 1992 og hefur verið orlofshús félagsmanna.

Sóltún er sögufrægt hús byggt árið 1930 af húsasmíðameistaranum Guðmundi Mosdal. Fyrsta skíðavikan á Ísafirði hóf göngu sína við Sóltún árið 1935 þar sem Guðmundur lánaði fólki skíði áður en það settist upp á vörubíl sem ók síðan sem leið lá upp á Seljalandsdal.

 

Stjórn Ísfirðingafélagsins hefur staðið að töluverðum endurbótum á húsinu undanfarin ár, skipt um glugga, endurgert jarðhæð hússins að stórum hluta, málað húsið og nú var komið að þeim tímapunkti að húsið þarfnaðist töluverðs viðhalds og endurbóta. Stjórn félagsins stóð því frammi fyrir þeirri ákvörðun hvort ætti að ráðast í endurbætur eða selja húsið og var stjórn veitt leyfi á aðalfundi félagsins til að selja húsið. Sóltún er mjög sjarmerandi hús á margan hátt en það telst þó frekar óhentugt fyrir eldra fólk og barnafjölskyldur, hús á þremur hæðum með þröngum stigum og flóttaleiðir mjög óaðgengilegar t.a.m. af efstu hæð hússins. Forsendur á leigumarkaði hafa breyst verulega undanfarin ár með tilkomu svokallaðra AirB&B leigumiðla/leigutækifæra og leiga á húsinu undanfarin ár hefur ekki verið mjög mikil .

Munum í eigu Ísfirðingafélagsins tengdir nafni félagsins og merkisatburðum þess hefur verið fundinn staður hjá Byggðasafni Vestfjarða og Skjalasafni Ísafjarðarbæjar til varðveislu.

Ákvörðun hvort félagið haldi áfram rekstri á orlofsíbúð fyrir félagsmenn bíður ákvörðunar stjórnar.
Nýr eigandi Sóltúns er Andri Hermannsson ungur maður ættaður frá Ísafirði, barnabarn Axels Aspelund. Ísfirðingafélagið óskar honum til hamingju með húsið og óskar honum alls hins besta.

Pin It on Pinterest