Sólkveðjukaffi Ísfirðingafélagsins var haldið um síðustu helgi í húsnæði Wurth á Íslandi við Norðlingabraut.
Þemað í ár var „Knattspyrnusaga Ísfirðinga“ sem nokkrir forsprakkar Púkamótsins réðust í að gefa út. Bókin kom út í júní s.l. og er til sölu hjá Haraldi (halli@wurth.is).

Haraldur Leifsson, framkvæmdastjóri Wurth á Íslandi og formaður ritnefndar bókarinnar sagði frá fyrirtækinu og aðdraganda að útgáfu Knattspyrnusögu Ísfirðinga.
Sigurður Pétursson sagnfræðingur og höfundur bókarinnar sýndi vel valdar myndir úr bókinni og rakti knattspyrnusögu Ísfirðinga frá 1905 allt til okkar daga. Bókin er mikið sögurit fyrir knattspyrnuna á Ísafirði og Íslandi og eiga þeir Púkar miklar þakkir skyldar fyrir útgáfu hennar.

Í ritnefnd bókarinnar eru Haraldur Leifsson, formaður, Halldór Jónsson, Frímann Sturluson, Stefán Jóhann Stefánsson, Jóhann Torfason, Pétur Sigurgeir Sigurðsson og Guðmundur Ólafsson.

Tónar Villa Valla ómuðu undir viðburðinum og sögðu dætur hans Sara, Bryndís og Svanhildur frá tilkomu og framleiðslu á mynd og tónlistardisknum „Villi Valli Lífshlaupið og tónleikar í Edinborg 5. nóvember 2016“ sem var tekinn upp bæði í hljóð og mynd fyrir fullu húsi í Edinborg.

Menningarmiðstöðin Edinborg gefur diskinn út.

Að venju var boðið upp á dýrindis veitingar og mæltist viðburðurinn mjög vel fyrir hjá gestum.

Stjórn Ísfirðingafélagsins þakkar öllum sem komu að viðburðinum sem og gestum kærlega fyrir skemmtilega, fræðandi og notalega stund.

Pin It on Pinterest