Við skólaslit Tónlistarskóla Ísafjarðar 29. maí s.l. veitti Ísfirðingafélagið Sigríði Erlu Magnúsdóttur sérstök verðlaun og heiðursviðurkenningu fyrir lofsverða ástundun, framfarið í námi og fyrir að hafa aukið hróður Tónlistarskóla Ísafjarðar.
Til verðlaunanna var stofnað á aðalfundi Ísfirðingafélagsins, 14. janúar 1992 í minningu Birnu Eyjólfsdóttur, sem m.a. var að góðu kunn fyrir fórnfús störf að félagsmálum.
Í umsögn frá stjórnendum Tónlistarskóla Ísafjarðar segir „Sigríður Erla er afar fjölhæf ung listakona. Hún er í píanónámi á framhaldsstigi, auk þess er hún í söngnámi og raftónlistarnámi. Hún sinnir námi sínu af einstakri samviskusemi, er sjálfstæð í vinnubrögðum auk þess sem hún sýnir skapandi frumkvæði. Hún er bæði efnileg og músíkölsk og á eflaust eftir að sinna tónlistinni í framtíðinni.“
Ísfirðingafélagið óskar Sigríði Erlu innilegar til hamingju með viðurkenninguna og óskar henni alls hins besta í framtíðinni.

 

Pin It on Pinterest