Fimmtudagskvöldið 26. október kl. 19:30 verða tónleikar í ítónleikasal Tónlistarskóla Garðabæjar vð Kirkjulund 11 þar sem boðið er upp á óvenjulega dagskrá. Það eru þrír ungir tónlistarmenn, bræður frá Ísafirði en af pólskum uppruna, Maksymilian, Mikolaj og Nikodem Frach, sem bjóða til skemmtilegra og fjölbreyttra tónleika.
Þessir bráðungu listamenn eru vel þekktir „fyrir vestan“ og hafa víða komið fram, einir og með öðrum, og ávallt vakið mikla athygli fyrir frábæran tónlistarflutning. Sunnan heiða hafa þeir einnig vakið athygli í NÓTUNNI, tónlistarkeppni tónlistarskólanna og EPTA-píanókeppninni.
Í þetta skipti hafa þeir fengið til liðs við sig vini frá Póllandi, Karolinu Marks, Beata Tasarz, og Hanna Nieborak auk þess sem foreldrar þeirra, Janusz og Iwona Frach taka þátt í tónleikunum.
Efnisskráin er metnaðarfull og óvenjuleg. Mikolaj leikur einleik í hinum fagra píanókonsert Chopins í f-moll nr. 2, Nikodem spilar einleik í fiðlukonsert í a-moll eftir Bach og Maksymilian og Karolina spila tvíleikinn í fiðlukonsert í d-moll BWV 1043 fyrir 2 fiðlur eftir Bach.
Maksymilian Haraldur er 21 árs, lauk framhaldsprófi með glæsibrag frá Tónlistarskóla Ísafjarðar fyrir nokkrum árum, fór svo í Listaháskóla Íslands þar sem hann var nemandi Guðnýjar Guðmundsdóttur. Hann fór sem skiptinemi til Póllands og stundar nú nám við Tónlistarháskólann í Kraków. Mikolaj Ólafur, sem er aðeins 17 ára, lauk framhaldsnámi í ipíanóleik sl. vor og hélt þá eftirminnilega tónleika í Hömrum á Ísafirði. Hann vakti mikla athygli er hann sigraði í framhaldsstigsflokki EPTA-píanókeppninnar fyrir 2 árum. Mikolaj hefur verið við píanónám í Póllandi undanfarna mánuði, en er nú kominn heim aftur. Yngsti bróðirinn, Nikodem Júlíus, 15 ára, stundar fiðlunám hjá föður sínum við Tónlistarskóla Ísafjarðar.
Hópurinn hélt tónleika á Ísafirði sl. sunnudagskvöld við mikla hrifningu áheyrenda.
Allir eru velkomnir á tónleika þessarari músíkölsku fjölskyldu og er aðgangur ókeypis. Frjáls framlög í ferðasjóð hljóðfæraleikaranna eru vel þegin.

Pin It on Pinterest