jonasÍsfirska tónskáldið Jónas Tómasson verður sjötugur á þessu ári (nánar tiltekið 21.nóvember) og verður þess minnst með flutningi verka hans á ýmsan hátt.
Listasafn Sigurjóns Ólafssonar heldur upp á afmælið með veglegum hætti á sumartónleikum safnsins þriðjudagskvöldið 26. júlí nk. þar sem sjö listamenn koma fram og flytja úrval einleiks- og kammerverka eftir Jónas. Tónleikarnir verða endurteknir í örlítið breyttu formi í tónlistarsalnum Hömrum á Ísafirði fimmtudagskvöldið 28. júlí.

Á dagskrá tónleikanna er lögð áhersla á fjölbreytni, að flytja einleiks- einsöngs- og dúóverk frá ýmsum tímum á tónskáldaferli Jónasar og að þau verði í styttri og aðgengilegri kantinum.
Flytjendur á tónleikunum eru allir tengdir tónskáldinu fjölskyldu- og/eða nánum vinaböndum og um leið mjög tengdir Ísafirði og Tónlistarskóla Ísafjarðar, en flestir hafa stundað þar nám um lengri eða skemmri tíma eða verið kennarar við skólann. Flytjendurnir eru: Söngkonurnar Herdís Anna Jónasdóttir og Þórunn Arna Kristjánsdóttir, píanóleikararnir Anna Áslaug Ragnarsdóttir, Sólveig Anna Jónsdóttir og Tinna Þorsteinsdóttir,  Hlíf Sigurjónsdóttir fiðluleikari og Leon van Mil sem leikur á baritón saxófón.

Jónas er fæddur á Ísafirði og hefur búið og starfað á Ísafirði þar í meir en 40 ár, eða nánast samfellt frá árinu 1973 og hefur helgað  starfsferil sinn ísfirsku tónlistarlífi að mestu leyti. Meðal annars hefur hann samið fjölda verka fyrir ísfirska tónlistarmenn, einleikara, einsöngvara, kóra, kammersveitir auk verka fyrir nemendur Tónlistarskólans. Hann stjórnaði Sunnukórnum um árabil, stofnaði Kammersveit Vestfjarða, og stýrði öflugu tónleikahaldi Tónlistarfélags Ísafjarðar í áratugi svo eftir var tekið um allt land. Hann kenndi flautuleik og tónfræðigreinar við Tónlistarskóla Ísafjarðar um áratuga skeið og eru margir nemendur hans starfandi listamenn í dag.
Jónas var fyrsti listamaðurinn sem ísafjarðarbær heiðraði sérstaklega með því að gera hann að bæjarlistamanni árið 2000.

Tónleikarnir í Reykjavík verða í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar á Laugarnestanga þriðjudagskvöldið 26.júlí kl. 20:30 og í Hömrum á Ísafirði fimmtudagskvöldið 28.júlí kl. 20:00. Miðaverð er kr. 2.500, en kr. 1.500 fyrir eldri borgara, nemendur og öryrkja.

Pin It on Pinterest